Að halda hund
Verðlag í júlí 2019
Eins og sést á töflunni er verðið á hvolpinum ráðandi í stofnkostnaði. Verðið á hreinræktuðum hundi er varla undir 100 þúsundum og það getur verið hærra en 300 þúsund. Það fer að nokkru leyti eftir stærð hundsins en líka eftir vinsældum tegundarinnar og framboði á hvolpum.
Fóðrið er ráðandi þáttur við að halda hund og verðið á því er mjög mismunandi. Það getur auðveldlega verið fimmfaldur munur á því hæsta og lægsta miðað við þurrfóður sem langflestir hundar um allan hinn vestræna heim nota. Það hefur ekki verið staðfest að dýrt fóður sé endilega betra en ódýrt fóður.
Blendingar
Allir hundar sem ekki fá ættbókarskráningu eru taldir vera blendingar. Þeir geta verið nánast eins og annaðhvort foreldrið að útliti og lundarfari en geta líka verið óræð blanda ýmissa tegunda. Það má reikna með að meirihluti skráðra (um 2100 í Reykjavík) og óskráðra hunda séu blendingar. Blendingar eru að jafnaði miklu ódýrari en hreinræktaðir hundar.
Námskeið
Það er óhikað hægt að ráðleggja byrjendum að fara á hvolpanámskeið. Það er gefandi fyrir hvolpinn og eigandann og skírteini frá viðukenndum aðilum gefur helmingsafslátt af hundagjaldinu í Reykjavík ár eftir ár. Svo er hægt að fara á ýmis framhalds-námskeið í hlýðni og fleiru síðar. Fátt er skemmtilegra fyrir mann og hund en að fara á námskeið..
Hundur í búri
Það er líka hægt að benda hundaeigendum á að venja hundana sína á að vera í búri. Margir hafa hundana í búri í bílnum og aðrir láta hundana sofa í búri. Hundar finna fyrir öryggi í búrinu sínu hvort sem það er lokað búr eða opið og ef þeir sofa í búri þarf oftast ekki að loka því. Og svo koma upp ýmsar aðstæður þar sem gott er að geta sett hundinn í búr.