Íslenski fjárhundurinn, karakterinn
- Besti vinurinn
- Jun 18, 2019
- 1 min read

Það er smekksatriði hvað fólki finnst fallegt eða ljótt. Besti vinurinn (höfundur) heldur þó að flestum eða nánast öllum finnist Íslenski fjárhundurinn vera fallegur hundur og sumum finnst auk þess að hann sé "svona eins og hundar eiga að vera."
Hann er einstaklega snoppufríður með frekar stór djúpbrún og vinaleg augu og virðist ávallt vera brosandi. Hann hefur þykkan mjúkan feld og uppréttu eyrun og upphringað skottið þekkja allir. Litirnir og litaskiptingin er fjölbreytt allt frá ljósgulum til dökkrauðs, brúns og svarts, stundum með gráa snoppu og/eða flekki en alltaf að hluta hvítur.
Þetta er kátur og fjörmikill hundur sem vill hafa eitthvað fyrir stafni og hann er góður með börnum. Gegnum aldirnar hefur hann haft það hlutverk að reka fé úr túnum og gæta bæjarins sem hann gerir skammlaust og með talsverðum látum. Besti vinurinn getur borið vitni um það. Sem heimilishundur í borginni geltir hann að ókunnugum mönnum og ferfætlingum, að fuglum, að flugum, að bílum og að flugvélum. En hann er samt ekki ógnandi.
Hann fellir talsvert af hárum og feldurinn þarf reglulega umhirðu til að vera það djásn sem hann getur verið. Hann hefur yndi af lausagöngu, hlýðir innkalli ágætlega og er fljótur að læra á flautu. Í heildina yndislegur en dálítið fyrirferðarmikill hundur þó ekki sé hann stór.
Comentarios