Smáhundar eru stundum geltnir og virðast vera ráðríkir og árásargjarnir bæði gagnvart fólki og öðrum hundum. Almennu skýringarnar á þessu eru að þeir þurfi að hafa hátt til að vega upp á móti smæðinni, að gelt séu skilaboð þeirra til annarra hunda um að þrátt fyrir smæðina sé þarna hundur á ferðinni sem þarf að taka mark á. Þessi hegðun er oft kölluð Smáhunda heilkennið (The small dog syndrome) en hundaþjálfarar og sérfræðingar um atferli hunda segja ástæðurnar gjarnan vera aðrar. Þær liggi frekar hjá hundaeigandanum en hundinum. Ýmislegt er leyft og þykir jafnvel krúttað í hegðun smáhunda sem er illa liðið hjá stærri hundum.
Flaður.
Þegar 30 kg labrador flaðrar upp um fólk sjá allir að það gengur ekki og eigandinn reynir að leiðrétta þessa hegðun. Ef ekki tekst að leiðrétta hegðunina getur það leitt til þess að hundurinn verði lokaður inni þegar fólk ber að garði. Sama hegðun hjá 3 kg chihuahua þykir etv bara krúttleg og fólk nennir ekki að leiðrétta hana.
Helgunarsvæði.
Stórir hundar fá ekki að stökkva upp í fangið á eigandanum þar sem hann situr og horfir á sjónvarpið. Þeir fá yfirleitt ekki að leggja sófann undir sig eða að sofa í rúminu þínu. Þeim er ekki leyft að valsa um allan bílinn og velja sér stað eftir eigin höfði.
Smáhundar gera allt þetta og meira til og er jafnvel hrósað fyrir af því að þeir "eru svo sætir" og þeim þykir svo gott að liggja í rúminu sem ilmar af eigandanum. Þetta getur leitt til þess að þeir meina öðru heimilisfólki aðgang að sófanum eða rúminu. Þegar þeir eru reknir burt þá urra þeir jafnvel. Í versta falli glefsa þeir og bíta.
Urr, glefs og bit.
Ef stór hundur sýnir merki um drottnunargirni með urri, glefsi og biti þá er það mikið vandamál og eigandinn reynir allt sem hann getur til að leiðrétta það. Þetta getur og hefur leitt til þess að fjarlægja þurfi hundinn af heimilinu.
Smáhundar komast oft upp með svona hegðun þar sem hún er ekki talin hættuleg heimilisfólkinu. Þeir komast jafnvel upp með að bíta til blóðs af því að bitið er ekki bráðhættulegt og af því að hundurinn var "hræddur" eða "af því að honum varð hverft við" eða hann "nývaknaður" greyið. Í raun eru þeir að helga sér yfirráð með þeim ráðum sem þeir hafa og sýna öðrum vanvirðu um leið.
Tiltölulega fara færri smáhundar á hvolpanámskeið en stærri hundar einkum þó á framhaldsnámskeiðen. Það er eins og fólki finnist óþarfi að kenna þeim almennar umgengnisreglur sem eru undirstaða þess að hægt sé að halda stærri hunda. En þetta er misskilningur og það er alveg jafn nauðsynlegt fyrir smáhunda og stóra hunda að þekkja sín mörk og stöðu sína í goggunarröðinni.
Á netinu er mikið magn upplýsinga um hundahegðun. Til dæmis hérna.
Commentaires