Íslenski fjárhundurinn rekur ættir sínar til Noregs og kom hér með landnámsmönnunum. Þetta var staðfest með blóðrannsóknum 1983. Hann hefur því verið Íslendingur í um 1100 ár og mátt þola sitthvað á þessum tíma.
Stuttu fyrir aldamóti 1000 ríkti kuldakast og hungursneyð og var lagt til að öllum hundum yrði lógað til að spara mat fyrir fólk. Á 15. og 16. öld komst hann í tísku hjá hefðarfólki í Englandi og varð verðmæt útflutningsvara. Um 1870 voru sett lög um hundahald í baráttunni við sullaveiki. Talið er að hundum hafi fækkað úr um 25 þús. í 10 þús. á árunum þar á eftir.
Um 1950 var stofninn í bráðri útrýmingarhættu þegar Englendingur af aðalsættum, Mark Watson, kom til sögunnar. Hann beitti sér fyrir og fjármagnaði varðveislu ýmissa menningarverðmæta, svo sem uppbyggingu Glaumbæjar í Skagafirði og björgun teikninga Collingwoods sem hann gaf Íslendingum, af einskærum áhuga fyrir Íslandi og íslenskri menningu. Ekki síst beitti hann sér fyrir varðveislu íslenska hundsins og hóf ræktun á honum ásamt því að gefa Íslendingu gamla Dýraspítalann í Víðidal fullbúinn tækjum árið 1973.
Watson flutti nokkra Íslenska fjárhunda með sér til BNA fyrir síðari heimsstyrjöldina og hóf þar skipulega ræktun stofnsins en það var ekki fyrr en Sigríður Pétursdóttir, í samvinnu við Pál A. Pálsson dýralækni, hóf markvissa ræktun á Ólafsvöllum á Skeiðum árið 1967 að skriður komst á ræktunarmálin. Hún flutti m.a. inn hunda erlendis frá til að víkka stofnstærðina en talið var að allir íslenskir hundar hafi verið komnir af 23 hundum og um 80% þeirra frá þremur af þeim. Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands stofnað amk til að byrja með til að stuðla að ræktun Íslenska fjárhundsins.
Yorumlar